Vinnustofa um nýtt skýringarmódel andlegrar líðanar

Vinnustofa um nýtt skýringarmódel andlegrar líðanar

PTMF Overview of The Wider Context

Power threat meaning framework – Summary

(English below)

Dagsetning: Fimmtudagur 14. september 2023, kl. 8.30-16:30

Staðsetning: Hótel Reykjavík Grand, Sigtún 28, 105 Reykjavík

Þátttökugjald: 12.750 kr. Innifalið er þátttaka í vinnustofunni, léttur hádegisverður og kaffiveitingar. Háskólastúdentar og öryrkjar greiða 8.950.
Athugið hvort að stéttarfélagið ykkar veiti styrki til þátttöku í vinnustofunni.

Skráning er hér

Smellið á hlekkinn hér fyrir ofan fyrir skráningu. Greiðsluupplýsingar berast í tölvupósti innan nokkurra daga.

Upplýsingar fyrir þátttakendur til notkunar í vinnustofunni má nálgast hér.   

Fyrirlesari: Dr. Lucy Johnstone, ráðgefandi klínískur sálfræðingur og annar aðalhöfundur power threat meaning framework – PTMF – sem í beinni íslenskri þýðingu útleggst sem valda-ógnar-merkingar-módelið.

Fyrir hver? Vinnustofan er áhugaverð fyrir fagfólk í heilbrigðis- félags- og menntagreinum, ekki síst þau sem vinna með fólki sem glímt hefur við geðrænar áskoranir og einnig það fólk sem þekkir þær af eigin raun eða hefur glímt við vímuefnavanda. Nemendur í háskólum í framangreindum greinum eru velkomnir og fá afslátt af þátttökugjaldi sem og öryrkjar.
Þá nýtist vinnustofan þeim sem koma að stefnumótun í heilbrigðis- og félagskerfi. Þá eru öll sem hafa áhuga á grundvallarhugmyndum, þróun og umbótum í þjónustu við fólk sem býr við geðrænar áskoranir og/eða vímuefnavanda velkomin.
Vinnustofan fer fram á ensku.

Þema: PTMF var unnið af sálfræðingum og þjónustunotendum yfir fimm ára tímabil og gefið út af Breska sálfræðifélaginu (ens. British Psychological Society – BSP) árið 2018 og gefur okkur annan valmöguleika við hefðbundin geðgreiningakerfi sem byggja á einkennum og greiningum. PTMF setur líka sambandið á milli félagslegra þátta eins og fátæktar, mismununar og misréttis í víðara samhengi ásamt áföllum eins og misnotkun og ofbeldi með tilheyrandi andlegum þjáningum. Hægt er að nota PTMF til að hjálpa fólki að skapa vonbetri frásagnir eða sögur um líf sitt og erfiðleika sína í stað þess að við lítum á okkur sem ámælisverð, veikburða, ófullnægjandi eða „geðveik“. PTMF sýnir líka fram á af hverju þau okkar sem eiga ekki augljósa sögu um áföll eigum oft erfitt með að finna til eigin verðleika, tilgangs og sjálfsvitundar. Sérstaklega verður hugað að samhengi kvenna með vímuefnavanda.
PTMF fjallar um okkur öll og hefur vakið athygli bæði á Bretlandi og á alþjóðavettvangi.
Þátttakendur eru kynntir fyrir grundvallarhugmyndum PTMF og fá tækifæri til að skoða hvernig PTMF getur nýst í þeirra starfi.
Frekari upplýsingar um PTMF er að finna í þessari þýddu grein og á vef Breska sálfræðifélgsins.

Um Lucy Johnstone: Dr. Lucy Johnstone er ráðgefandi klínískur sálfræðingur, hún er höfundur bókarinnar Users and abusers of psychiatry (3. útg. Routledge 2021), A straight-talking guide to psychiatric diagnosis (PCCS Books, 2. útg. 2022); meðritstjóri Formulation in psychology and psychotherapy: making sense of people’s problems (Routledge, 2. útg. 2013) og meðhöfundur A straight talking introduction to the Power Threat Meaning Framework, 2020, PCCS Books) ásamt fjölda annarra kafla og greina sem fjalla á gagnrýninn hátt um geðheilbrigðisfræði og ástundun hennar. Lucy er fyrrverandi námsstjóri Bristol Clinical Psychology Doctorate í Bretlandi og hefur starfað við geðheilbrigðisþjónustu fullorðinna í fjölda ára, síðast í Suður-Wales. Hún er gestaprófessor við London South Bank-háskólann og félagi (ens. fellow) í Breska sálfræðifélaginu.
Lucy er aðalhöfundur, ásamt prófessor Mary Boyle, Power Threat Meaning Framework – PTMF  (2018), útgáfu Breska sálfræðingafélagsins sem var þróuð í samvinnu við notendur geðheilbrigðisþjónustu. PTMF er hugmyndafræðilegur valkostur við geðgreiningu sem hefur vakið athygli víða um heim. Lucy er reyndur fyrirlesari í kennslu, á ráðstefnum og víðar og starfar nú sem sjálfstæður þjálfari. Hún býr í Bristol á Bretlandi.

Nánari upplýsingar gefur Kristín I. Pálsdóttir kristin@rotin.is

Vinnustofan er haldin með styrk frá landbúnaðar- og matvælaráðuneytinu sem hafði umsjón með líknarsjóði Sigríðar Melsted sem slitið var árið 2022. Eins og fram kemur á vef ráðuneytisins bar orðalag skipulagsskrár sjóðsins keim af tíðaranda síns tíma en þar segir m.a.: „Líknarsjóður þessi skal vera handa ógiftum, heilsuveikum og bágstöddum konum, einkum þeim sem aldar hafa verið upp á góðum og siðprúðum heimilum, og eru siðprúðar.“

____________________________________________________________

Dagskrá / Agenda

8:30-9:00 Skráning / Registration
9:00-10:15 Kynning: Yfirlit yfir stóra samhengið /

Introductions: Overview of the wider context

10:15-10:35 HLÉ / BREAK
10:35-12:15 Yfirlit yfir Power Threat Meaning Framework, spurningar / The Power Threat Meaning Framework: summary and questions
12:15-13:00 HÁDEGISHLÉ / LUNCH
13:00-14:45 Æfingar – litlir hópar / Exercise – small groups
14:45-15:05 HLÉ / BREAK
15:05-16:20 Æfingar og endurgjöf / Exercise and feedback
16:20-16:30 Spurningar að lokum / Final questions

____________________________________________________________

Workshop about the Power threat meaning framework (PTMF)

Date: Thursday 14 September 2023 from 8.30 to 16:30

Location: Hotel Reykjavik Grand, Sigtún 28, 105 Reykjavík

Participation fee: ISK 12.750 kr. Included is participation in the workshop, a light meal, and refreshments. University students and people with disabilities pay 8.950.
Check if your labour union offer grants for participation.

Registration

Click the link above to registrate. You will get information on payment by email in a few days.

Lecturer: Dr Lucy Johnstone is a consultant clinical psychologist and co-lead author of the Power Threat Meaning Framework, a radical new conceptual alternative to the diagnostic model of distress.

For whom? The workshop is interesting for professionals in the health, social and educational fields, especially those who work with people who have struggled with mental challenges and also those who know them firsthand or have struggled with substance use. Students in universities in the aforementioned subjects are welcome and receive a discount on the participation fee, as do disabled people.
The workshop is useful for those involved in policy making in the health and social care field. Everyone who is interested in paradigm of mental health, development, and improvements in services for people living with mental challenges and/or substance use is welcome.
The Workshop is in English.

Theme: The Power Threat Meaning Framework, produced by psychologists and service users over a period of 5 years and published by the British Psychological Society in 2018, offers an alternative to more traditional models of mental health based on psychiatric diagnosis. It clarifies the links between wider social factors such as poverty, discrimination and inequality, along with traumas such as abuse and violence, and the resulting emotional distress. The Framework can be used as a way of helping people to create more hopeful narratives or stories about their lives and their difficulties, instead of seeing themselves as blameworthy, weak, deficient or ‘mentally ill’. It also shows why those of us who do not have an obvious history of trauma or adversity can still struggle to find a sense of self-worth, meaning and identity. The PTMF is about all of us and has attracted national and international attention. The context on women and substance use will be given notice.
Participants will be introduced to the principles of the PTMF and will have the opportunity to explore how it might support their practice.
For further information about PTMF see this article and visit the BPS website.

About Lucy Johnstone: Dr Lucy Johnstone is a consultant clinical psychologist, author of ‘Users and abusers of psychiatry‘ (3rd edition Routledge 2021) and ‘A straight-talking guide to psychiatric diagnosis’ (PCCS Books, 2nd edition 2022); co-editor of ‘Formulation in psychology and psychotherapy: making sense of people’s problems’ (Routledge, 2nd edition 2013); and co-author of ‘A straight talking introduction to the Power Threat Meaning Framework’, 2020, PCCS Books) along with a number of other chapters and articles taking a critical perspective on mental health theory and practice. She is the former Programme Director of the Bristol Clinical Psychology Doctorate in the UK and has worked in Adult Mental Health settings for many years, most recently in a service in South Wales. She is Visiting Professor at London South Bank University and a Fellow of the British Psychological Society.
Lucy was lead author, along with Professor Mary Boyle, for the ‘Power Threat Meaning Framework’ (2018), a British Psychological Society publication co-produced with service users, which outlines a conceptual alternative to psychiatric diagnosis and has attracted national and international attention. Lucy is an experienced conference speaker and lecturer, and currently works as an independent trainer. She lives in Bristol, UK.

For further information please contact Kristín I. Pálsdóttir: kristin@rotin.is

The workshop is funded with a grant from The Ministry of Food, Agriculture and Fisheries, which was in charge of Sigríður Melsted’s charity fund, which was terminated in 2022. As stated on the ministry’s website, the wording of the foundation’s charter had a flavour of the zeitgeist of its time, but it says: “This charity fund shall be for unmarried, ill-health and poor women, especially those who have been brought up in good and moral homes and are well-bread.”

Yfirlýsing um stöðu flóttafólks

Yfirlýsing um stöðu flóttafólks

Rótin er eitt af aðildarfélögum Kvenréttindafélags Íslands og Mannréttindaskrifstofu Íslands og því aðili að yfirlýsingu félagasamtaka sem lýsa þungum áhyggjum af mjög alvarlegri stöðu sem upp er komin í málefnum fólks á flótta. Rótin vill hér með ítreka fullan stuðning við yfirlýsinguna í eigin nafni.
Félgið vill einnig benda á að GREVIO – Nefnd Evrópuráðsins um ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi – gaf út skýrslu sína á síðasta ári um stöðuna hér á landi en nefndin hefur eftirlit með framkvæmd Istanbúl-samningsins. Þar segir að kerfi hérlendis séu ekki nægilega í stakk búin til að bregðast við ofbeldi gegn jaðarsettum hópum, svo sem konum af erlendum uppruna, konum með fötlun eða konum með vímuefnavanda. Ákvæði 4. gr. 3. mgr. Istanbúl-samningsins um vernd þolenda krefst þess að öllum konum sem búa við eða eru í hættu á að verða fyrir ofbeldi sé framkvæmd án nokkurrar mismununar.
Mikil er niðurlæging jafn ríkrar þjóðar og Íslendingar eru að beita valdi gegn fólki í viðkvæmri stöðu á þann hátt sem breytingar á útlendingalögum hafa leitt af sér.

Yfirlýsing samtakanna
„Neðangreind félagasamtök lýsa þungum áhyggjum af mjög alvarlegri stöðu sem komin er upp í málefnum fólks á flótta sem vísað hefur verið úr allri þjónustu opinberra aðila eftir neikvæða niðurstöðu umsóknar um vernd á báðum stjórnsýslustigum. Afdrif þess, öryggi og mannleg reisn eru í hættu.
Samtökin harma að ekki skuli hafa verið tekið tillit til ítrekaðra varnaðarorða varðandi afleiðingar nýrra lagaákvæða. Þá leikur mikill vafi á að framkvæmdin standist þær mannréttindaskuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist.
Margt sem ráðamenn hafa sagt í þessari umræðu er villandi, óljóst og byggir á skorti á upplýsingum um raunverulega stöðu fólksins.
Samtökin skora á yfirvöld að tryggja öryggi þessa hóps, mannréttindi og grunnaðstoð með virku samráði við hjálpar- og mannréttindasamtök.
Því boða neðangreind samtök stjórnvöld til samráðsfundar nk. mánudag 21. ágúst 2023 klukkan 17.00 í sal Hjálpræðishersins á Suðurlandsbraut 72. Sérstaklega hefur verið óskað eftir viðveru hlutaðeigandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Reykjavík, 18. ágúst 2023

  • Barnaheill
  • Biskup Íslands
  • FTA – félag talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd
  • Geðhjálp
  • GETA hjálparsamtök
  • Hjálparstarf kirkjunnar
  • Hjálpræðisherinn á Íslandi
  • Íslandsdeild Amnesty International
  • Kvenréttindafélag Íslands
  • Mannréttindaskrifstofa Íslands
  • No Boarders
  • Prestar innflytjenda, Þjóðkirkjunni
  • Rauði krossinn á Íslandi
  • Réttur barna á flótta
  • Samhjálp
  • Samtökin 78
  • Solaris
  • Stígamót
  • UNICEF á Íslandi
  • UN Women á Íslandi
  • W.O.M.E.N. – samtök kvenna af erlendum uppruna
  • Þroskahjálp
  • ÖBÍ – heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi“
Handan geðheilsuhugmyndarinnar

Handan geðheilsuhugmyndarinnar

Eftirfarandi grein er eftir Lucy Johnstone sem er ráðgefandi klínískur sálfræðingur og aðalhöfundur power threat meaning framework (PTMF), ásamt prófessor Mary Boyle. Bein þýðing á íslensku er valda-ógnar-merkingar-hugmyndaramminn en hér eftir verður notast við PTMF.

Lucy Johnstone verður með heilsdags vinnustofu um PTMF hinn 14. september í Reykjavík á vegum Rótarinnar. Allar nánari upplýsingar og skráning fer fram hér.

____________________________

Handan geðheilsuhugmyndarinnar

Power threat meaning model.

Ekki einasta er kominn tími til varpa geðgreiningum fyrir róða, heldur er einnig tími kominn til að komast upp úr sporum sjúkdómsvæðingar „geðheilsu“. Nýr hugmyndarammi sem hjálpar okkur að skilja að við glímum öll við andlega vanlíðan og þjáningu – svokallað power threat meaning model – PTMF – getur vísað leið að heiðarlegri og skilvirkari viðmiðum, skrifar klíníski sálfræðingurinn Lucy Johnstone.

Hugmyndin um að fólk sem upplifir ýmiss konar tilfinningalega vanlíðan þjáist af læknisfræðilegum sjúkdómum stendur djúpum rótum í vestrænum samfélögum, að því marki að efasemdir um slíkar skilgreiningar eru oft túlkaðar sem afneitun á raunverulegri upplifun fólks. Eftir að hafa starfað við geðheilbrigðisþjónustu í yfir þrjá áratugi er slík afneitun mér víðs fjarri. Hins vegar veit ég líka að hefðbundin nálgun, sem byggir alfarið á greiningum og lyfjagjöf, skilar sjaldnast þeim lausnum sem vonast er eftir. Reyndar sýna rannsóknir í auknum mæli að líklegra er að slík nálgun leiði frekar til þess að fólk verður háð geðþjónustu ævina á enda.[1]

Þegar virtustu geðlæknar heims viðurkenna að handbækur í geðgreiningum séu „alger vísindaleg martröð“[2] er kreppa í geðheilbrigðiskerfinu okkar og brýn þörf á breytingum. Eins og ég lýsti í fyrri grein í IAI News[3], eru nokkrir valkostir þegar til – eins og einstaklingsmiðuð lýsing vanda (ens. formulation)[4], sem er persónuleg saga sem hjálpar til við að skilja andlegar þjáningar í ljósi samskipta og lífsreynslu. Í þessari grein lýsi ég mun metnaðarfyllra verkefni,power threat meaning model (PTMF). Verkefnið var fjármagnað af deild klínískrar sálfræði í Breska sálfræðifélaginu og er tilraun til að endurskilgreina líkön okkar um andlega þjáningu frá grunni. Þó að PTMF sé ekki opinber stefna BPS, hefur verkefnið vakið áhuga bæði á Bretlandi og á alþjóðavettvangi. Þetta tel ég til vitnis um að almennt sé viðurkennt að kominn er tími á nauðsynlegar grundvallarbreytingar.

Grundvöllur PTMF

PTMF var samið af sálfræðingum og fyrrverandi notendum geðheilbrigðisþjónustunnar. Markmið okkar var að veita nýja innsýn, sem ekki byggir á sjúkdómslíkaninu, á hvers vegna fólk glímir stundum við alls kyns yfirþyrmandi tilfinningar og lífsreynslu eins og rugling, ótta, örvæntingu, vonleysi, skapsveiflur, að heyra raddir, sjálfsskaða, ofsahræðslu, flókið samband við mat og svo framvegis. PTMF heldur því fram að hvers kyns vanlíðan, jafnvel mjög alvarleg, sé skiljanleg þegar hún er sett í samhengi við tengsl okkar og félagslegar aðstæður, samfélagsgerðina í víðara samhengi, viðmið og væntingar samfélagsins og menningarinnar sem við búum í.

PTMF á ekki bara við um fólk sem hefur verið í sambandi við geðheilbrigðisþjónustuna, það gildir um okkur öll – módelið viðurkennir í raun ekki að aðskilinn hópur fólks sé „geðveikur“. Slík stefnubreyting frá ríkjandi hugsunarhætti þýðir að tungumálið okkar þarf jafnframt að breytast. PTMF hafnar ekki aðeins greiningarflokkum, það forðast einnig hugtök eins og „einkenni“, „veikindi“, „röskun“ þar sem þau gefa öll til kynna læknisfræðilegt sjónarhorn. Þess í stað vísar það til „andlegrar vanlíðanar“ og „tilfinningalegrar þjáningar“.

PTMF og vald

PTMF leggur ríka áherslu á hvernig hinar fjölbreyttu birtingarmyndir valds hafa áhrif á líf okkar. Þetta felur í sér valdið sem við höfum sjálf, eða okkur skortir, á sviðum eins og í samböndum, varðandi líkamlega heilsu, efnisleg gæði, eins og mannsæmandi húsnæði, og svo framvegis. Vald getur haft jákvæð áhrif á líf okkar – við getum notið góðs af náinni fjölskyldu, góðri menntun, stuðningsaðilum, nægum peningum til að lifa á og kostunum sem fylgja því að vera hvítur, vinnufær eða í millistétt. Hins vegar getur vald líka haft neikvæð áhrif á okkur. Við getum verið svo óheppin að upplifa áföll eins og misnotkun, ofbeldi eða vanrækslu. Við getum hafa orðið fyrir fjölskylduslitum eða ástvinamissi, eða verið háð greiðslum frá félagsþjónustu eða tilheyrt samfélagi sem er vanrækt eða jaðarsett. Við verðum sem sagt öll að einhverju leyti fyrir áhrifum af félagslegum og efnahagslegum stefnum sem geta stuðlað að misskiptingu auðs, mismunun, umhverfisvá og öðru félagslegu óréttlæti.

Í PTMF er lögð mikil áhersla á hugmyndafræðilegt vald. Hér er átt við hverskyns félagsboð sem við fáum um hver við erum, hvernig við eigum að líta út, haga okkur og stýra lífi okkar, hegðunarmynstrunum sem við ættum að fylgja og hugsunum, tilfinningum og hegðun sem við ættum að forðast ef við viljum ekki skammast okkar, vera útilokuð, niðurlægð, ástlaus eða lítilfjörleg. Þó að öll samfélög búi við félagsleg viðmið af einhverju tagi er alltaf hætta á að þau séu nýtt til að þjóna sérhagsmunum. Til dæmis erum við stöðugt hvött til að vera óánægð með eigið útlit í þeim tilgangi að við eyðum meira í föt, förðun, mataræði og líkamsræktarstöðvar. Þessi þrýstingur er knúinn áfram af einstaklings- og afrekshyggju, samkeppnis- og neysluhyggju, sem liggur til grundvallar flestum vestrænum samfélögum. Hulið hlutverk hugmyndafræðilegs valds, sem miðlað er með tungumálinu sem við heyrum og skilaboðunum sem dynja á okkur alstaðar, gerir það að verkum að jafnvel þau okkar sem ekki eiga augljósa sögu um áföll eða mótlæti geta líka átt í erfiðleikum með að finna til sjálfsvirðingar, finna tilgang og sjálfsmynd.

Lykilspurningar PTMF

Helstu þættir PTMF eru teknir saman í nokkrum lykilspurningum. Í stuttu máli hjálpa þær okkur að fara frá því að spyrja „Hvað er að þér?“ í „Hvað kom fyrir þig?“

  • „Hvað kom fyrir þig?“ (Hvernig hefur vald áhrif á líf þitt?)
    • „Hvernig hafði það áhrif á þig?“ (Hvaða ógn stafar af því?)
    • „Hvaða skilning lagðir þú í það?“ (Hvaða merkingu hafa þessar aðstæður og reynsla fyrir þig?)
    • „Hvað þurftir þú að gera til að lifa af?“ (Hver voru viðbrögð þín við ógninni?)

Að auki geta spurningarnar tvær hér að neðan hjálpað okkur að hugsa um hvaða færni og úrræði fólk, fjölskyldur eða samfélög hafa og hvernig við getum dregið allar þessar hugmyndir og viðbrögð saman í frásögn eða sögu:

  • „Hverjir eru styrkleikar þínir?“ (Hvaða aðgang að valdi og úrræðum hefur þú?)
  • „Hver ​​er sagan þín?“ (Hvernig passar þetta allt saman?)

Ekki á endilega að spyrja spurninganna með þessum orðum eða í þessari röð. Þær benda einfaldlega á þá þætti sem þarf að huga að. Hins vegar hjálpa þær okkur að búa til frásagnir eða sögur um líf okkar, með tilheyrandi baráttu og erfiðleikum, sem gefa okkur von í stað þess að við lítum á okkur sem ámælisverð, veikburða, ófullnægjandi eða „geðveik“ með hliðsjón af PTMF.[5] Fagaðili gæti hjálpað okkur að búa til slíka sögu, en það er jafn mögulegt og áhrifaríkt að gera það á eigin spýtur, eða með vini, maka eða jafningjahópi.

Markmið PTMF-spurninganna eru að varpa ljósi á tengsl ógnar og viðbragða við ógn, eða með öðrum orðum, þess sem við höfum upplifað og tilraunir okkar til að takast á við ógnir og lifa þær af. „Viðbrögð við ógn“ samsvara í grófum dráttum því sem við getum kallað „einkenni“ í geðlækningum. Þau eru allt frá sjálfvirkum líkamlegum viðbrögðum eins og ofsahræðslu til aðferða sem við veljum sjálf, eins og sjálfsskaða eða vímuefnanotkunar, sem hjálpa okkur að stjórna yfirþyrmandi tilfinningum, minningum eða aðstæðum. Viðbrögð við ógn sem truflar líf okkar geta einnig falið í sér að vinna of mikið eða reyna stöðugt að ná árangri.

Að breyta frásögninni úr „Ég er með geðsjúkdóm/geðrænan vanda“ í „Ég er að komast í gegnum erfiðar aðstæður eins vel og ég get“ er mikilvægt skref í áttina að því að hjálpa okkur að finna nýjar leiðir fram á við. Í þessu getur falist ýmiss konar meðferð eða félagslegur stuðningur, sem veittur er af bestu fáanlegu fagaðilum. Einnig getur það verið notkun geðlyfja til að stjórna yfirþyrmandi tilfinningum, svo framarlega sem við lítum ekki á lyfin sem „meðhöndlun á sjúkdómi“ eða lausn á vanda lífsins. Hins vegar bendir PTMF á að aðrar leiðir sem ekki fela í sér sjúkdómsvæðingu sem geta verið jafn gagnlegar eða gagnlegri – skapandi listir, sjálfshjálparhópa, hreyfingu og, kannski fyrir sum, félagsleg virkni af einhverju tagi. Mikilvægast er að mótun frásagnar samkvæmt PTMF hefur hjálpað mörgum að finna fyrir létti og losna við sektartilfinningu, skömm og fordóma sem oft fylgja geðrænum merkimiðum, stimplun, og að skoða djúpstæðar undirliggjandi ástæður fyrir vanlíðaninni.

PTMF felur einnig í sér áhrif landmissis, missi arfleifðar, sjálfsmyndar og samfélags í gegnum áföll sem berast á milli kynslóða og stafa af kynþáttafordómum, nýlendustefnu, hernaði, þjóðarmorðum og svo framvegis. Útflutningur geðgreiningarkerfisins um heim allan þýðir að margir frumbyggjar verða fyrir auknu óréttlæti vegna þess að þeir eru stimplaðir „geðveikir“ á grundvelli viðbragða þeirra við margvíslegri misbeitingu valds.[6]

Fyrir nokkrum áratugum var talið að „geðsjúkdómar“ hefðu aðeins áhrif á lítinn hluta fólks. Nú á dögum erum við hvött til að trúa því að „við höfum öll geðheilsu.“ Þetta vel meinta slagorð er, samkvæmt PTMF, mjög villandi. Það væri réttara að segja „við höfum öll tilfinningar“ og að stundum geta þessar tilfinningar verið yfirþyrmandi. Hins vegar spretta þær ekki af engu. Það kemur ekki á óvart að tíðni svokallaðra „geðsjúkdóma“ aukist svo hratt, sérstaklega meðal ungs fólks, í ljósi þess mikla álags sem er í skólum og á vinnumarkaði. Geðgreining felur þessi tengsl með því að staðsetja vandamálin hjá einstaklingunum, á meðan PTMF sýnir okkur að rætur þeirra liggja í vaxandi misrétti í nýfrjálshyggju vestrænna samfélaga sem veldur tengslarofi frá tilfinningum okkar, frá hvert öðru og náttúrunni.

Til dæmis um þetta eru fyrirsagnir sem skjóta okkur skelk í bringu um „geðheilbrigðisfaraldurinn“ sem, svo óheppilega vill til, er sagður fylgja í kjölfarið á COVID-faraldrinum. Samt sýna rannsóknir mjög skýrt að þau sem hafa orðið fyrir mestum fjárhagserfiðleikum finna til mestrar örvæntingar.⁶ Svarið felst ekki í því að auka geðheilbrigðisþjónustu, eins og okkur er oft sagt, heldur í því að tryggja efnahagslegt öryggi fólks. Þessi „geðheilbrigðis“-orðræða er hluti af pólitískri afneitun sem einstaklingsvæðir og stimplar eðlileg viðbrögð fólks. Með því að tengja saman ógn og viðbrögð við ógn er þessu ferli snúið við og vísar okkur á betri vegi fram á við.

Við eigum langt í land þangað til geðgreiningarkerfin verða aflögð og þeirra í stað innleiddar aðferðir sem ekki fela í sér sjúkdómsvæðingu andlegrar vanlíðanar. Hins vegar er PTMF mikilvægt skref í átt að þessu markmiði og sýnir að á endanum verður að finna lausnirnar í sameiginlegri baráttu okkar til að skapa sanngjarnara samfélag.

[1] Whitaker, R. (2010). Anatomy of an Epidemic. New York, NY: Broadway Paperbacks.

[2] Hyman. S. (6 May 2013), Psychiatry’s Guide Is Out of Touch with Science, Experts Say, New York Times, 2013

[3] Sjá: Lucy Johnstone. 2019. „Does ‘Mental Illness’ Exist? The Problem with Psychiatric Diagnosis“: https://iai.tv/articles/does-mental-illness-exist-auid-1280

[4]Formulation‘ er saga og staða einstaklingsins sem unnin er í samstarfi hans og meðferðaraðila. Ekki fannst þýðing á ‚formulation‘ í þessu sambandi en Jakob Smári notar þýðinguna „aðgerða- og einstaklingsmiðuð greining vanda“ á ‚case formulation‘ í grein sinni „Nokkur mikilvæg en stundum gleymd álitamál um víddir, flokka, próf og geðraskanir“ í Sálfræðiritinu – Tímarit Sálfræðingafélags Íslands 12. árg. 2007, bls. 55-70.

[5] Gagnlegt inngangsrit fyrir notkun PTMF er: Boyle, M and Johnstone, L (2020) A straight talking introduction to the Power Threat Meaning Framework: an alternative to psychiatric diagnosis. Monmouth: PCCS Books.

[6] Blogg þar sem PTMF er borið saman hvernig frumbyggjar skilja vanlíðan og þjáningar er hér: Crossing Cultures with the Power Threat Meaning Framework – New Zealand, Mad In the UK, 2019.

Greinin birtist í The Institute of Art and Ideas News, 95. útg. 5. maí 2021. Sjá: Beyond the mental health paradigm. The power threat meaning framework: https://iai.tv/articles/beyond-the-mental-health-paradigm-the-power-threat-meaning-framework-auid-1803.

Kristín I. Pálsdóttir þýddi greinina.

Ráðstefna um fíknistefnu og jafnrétti í velferðarríkjum

Ráðstefna um fíknistefnu og jafnrétti í velferðarríkjum

Treading the Path to Human Rights. Gender, Substance Use and Welfare States er þverfagleg ráðstefna um mannréttindamiðaða nálgun í mótun fíknistefnu í velferðarríkjum sem verður haldin dagana 17.–18. október 2023. Á ráðstefnunni er sjónum beint að stöðu og framtíð í fíknistefnu og vímuefnanotkun í velferðarríkjum. Erlendir og innlendir sérfræðingar munu ræða stefnumótun í málaflokknum að því er varðar mannréttindi, skaðaminnkun og bæði kynjaða og félagslega áhrifaþætti vímuefnanotkunar. Sérstök áhersla er á fíknistefnu í velferðarríkjum og þá ekki síst norrænum.

Fjallað verður um mismunun á grundvelli kynþáttar, stéttar, kynferðis, kynhneigðar ásamt kynjamisrétti, í samræmi við áskoranir alþjóðastofnana og fólks sem notar vímuefni. Einnig verður áhersla á nauðsyn þess að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið í stefnumótun, með hliðsjón af bæði þörfum kvenna og hinsegin fólks og hvernig þær eru frábrugðnar þörfum gagnkynhneigðra sís karla.

Ráðstefnan er skipulögð af Rótinni og RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands og fer fram á Hótel Reykjavík Grand.

Forskráning á ráðstefnuna er á vef RIKK.

Markmið ráðstefnunnar eru að vekja athygli á mikilvægi stefnumótunar í málflokknum, safna saman sérfræðingum, fagfólki, embættismönnum, stjórnmálafólki og öðrum sem áhrif hafa á stefnumótun eða vilja miðla þekkingu sinni og reynslu. Einnig að fá til landsins nýjustu strauma og stefnur um málefnið frá Evrópu.

Staðfestir fyrirlesarar eru í stafrófsröð:

Danilo Ballotta (MSc) aðal stefnumótunarsérfræðingur Eftirlitsmiðstöðvar Evrópu með lyfjum og lyfjafíkn (EMCDDA) og fulltrúi  í samskiptum við stofnanir Evrópusambandsins. Ballotta fjallar um fíknistefnu í Evrópu í nútíð og framtíð.

Emma Eleonorasdotter (PhD)   lektor og rannsakandi í mannfræði við Háskólann í Lundi í Svíþjóð. Rannsóknir hennar veita menningarlega innsýn í misrétti, þá sérstaklega um löglega og ólöglega notkun vímuefna. Emma fjallar um hversdagslega notkun kvenna í Svíþjóð á vímuefnum út frá menningarlegu sjónarhorni með áherslu á kyn og stétt.

Matilda Hellman (DSocSci) er félagsfræðingur og dósent við Háskólann í Helsinki og ritstjóri NAD – Nordic Studies on Alcohol and Drugs – tímaritsins. Mathilda fjallar um vímuefnastefnu, skaðaminnkun og stefnumótun í velferðarríkjum.

Sarah Morton (PhD) er lektor og forstöðukona Community Drugs Programme, University College Dublin, og sérfræðingur í skaðaminnkandi nálgun, konum, heimilisofbeldi og stefnumótun. Morton fjallar um flókinn vanda kvenna sem nota vímuefni og innleiðingu breyttrar stefnu í þátttökuferli.

Sigrún Ólafsdóttir (PhD) er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún beint sjónum að heilsu, geðheilsu, ójöfnuði, stjórnmálum og menningu, þá sérstaklega hvernig stærri samfélagslegir þættir, svo sem velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið, hafa áhrif á líf einstaklinga.

Sigurður Örn Hektorsson er yfirlæknir hjá Embætti landlæknis og er sérfræðingur í heimilislækningum, fíknilækningum og geðlækningum. Hann hefur 40 ára reynslu af fjölbreytilegu klínísku læknisstarfi með fólki með vímuefnavanda og föngum.

Sólveig Anna Bóasdóttir (PhD) er prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er kristin siðfræði, femínísk siðfræði og kynlífssiðfræði. Hún fjallar um siðferðileg álitamál í mótun fíknistefnu.

Styrktaraðilar:

Heilbrigðisráðuneytið er aðalstyrktaraðili og ráðstefnan er einnig styrkt af Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.

Aðalfundur, nýtt ráð og ársskýrsla fyrir 2022

Aðalfundur, nýtt ráð og ársskýrsla fyrir 2022

Aðalfundur Rótarinnar var haldinn 13. maí 2023 og fóru þar fram hefðbundin aðalfundarstörf. Kristín I. Pálsdóttir flutti skýrslu ráðsins og kynnti reikninga félagsins þar sem gjaldkeri boðaði forföll, fundarritari var Marta Sigríður Pétursdóttir. Þá var starfsáætlun næsta starfsárs kynnt.

Nýtt ráð félagsins hélt svo sinn fyrsta fund nokkrum dögum síðar og skipti með sér verkum þannig að Kristín I. Pálsdóttir var valin formaður, Elísabet Herdísar Brynjarsdóttir, varaformaður, Kolbrún Kolbeinsdóttir, ritari, Sara S. Öldudóttir, gjaldkeri og Nadía Borisdóttir, meðstjórnandi. Í vararáð voru kosnar: Helga Baldvins Bjargardóttir og Sara Stef. Hildardóttir en skoðunaraðili reikninga er áfram Auður Önnu Magnúsdóttir.

Talsverðar lagabreytingar voru lagðar fram fyrir fundinn og sköpuðust fjörugar umræður um þær og fór svo að þær voru allar samþykktar nema sú tillaga að öllum væri heimill aðgangur að félaginu. Rótin er því enn eingöngu opin konum og kvárum. Hægt er að skoða ný lög hér.

Einnig var samþykkt að félagsgjöld yrðu 3.000 kr á næsta starfsári.

FEANTSA

Tillaga um að Rótin sæki um aðild að FEANTSA – European Federation of National Organisations Working with the Homeless – var samþykkt en samtökin eru þau einu í Evrópu sem einbeita sér alfarið að því að vinna gegn heimilisleysi með það að markmiði að binda endi á heimilisleysi í Evrópu. Þá var samþykkt að veita ráðinu heimild til að sækja um aðild að EAPN – European anti-poverty network á Íslandi.

Starfsáætlun næsta starfsárs

Konukot er stærsta verkefni félagsins eins og undanfarin ár. Samningur Rótarinnar og Reykjavíkurborgar um rekstur Konukots rennur út 1. október 2023 og því standa fyrir dyrum samningar við borgina um áframhaldandi rekstur en félagið hefur tjáð Reykjavíkurborg að áhugi sé á því. Breytingar sem unnið hefur verið að í Konukoti hafa skilað góðum árangri í gæðum starfsins og því væri gott að geta haldið áfram með verkefnið.

Umræðukvöld voru tekin upp sl. haust og næsta starfsár er stefnt að 2-3 umræðukvöldum að hausti og vori

Heilbrigðisverkefni í Konukoti fer af stað í haust í samstarfi við skjólið. Það er fjármagnað af heilbrigðisráðuneyti og verður gerð rannsókn á árangrinum.

Þriðja ráðstefna félagsins verður haldin 17.-18. október með erlendum og innlendum þátttakendum. Að þessu sinni er meginþemað mannréttindi og fíknistefna.

Félagið er komið með gott tengslanet erlendis m.a. í gegnum Evrópuverkefni og er áhugi á að nýta þau til frekari þekkingaruppbyggingar.

Þrátt fyrir að margt hafi færst til betri vegar í málefnum fólks með vímuefnavanda á undanförnum árum eru breytingarnar meiri á sveitarstjórnarstiginu en hjá ríkinu þar sem enn skortir mikið á að til sé skýr stefnumótun, klínískar leiðbeiningar, gæðaviðmið, leiðbeiningar um góðar venjur og starfshætti. Það eru því enn ótal verkefni í réttindabaráttu og hagsmunagæslu fyrir konur með vímuefnavanda á Íslandi sem Rótin getur einbeitt sér að.

Á komandi starfsári verður nóg að gera í hagsmunabaráttu fyrir konur og kvára með vímuefnavanda og mun félagið leggja sig fram um það.

Hér er hægt að nálgast ársskýrslu Rótarinnar fyrir árið 2022 og þar er einnig ársskýrsla Konukots.