Reykjavík 27. nóvember 2017

Ágæti Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttisráðherra.

Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda hefur undanfarin ár barist fyrir nútímavæðingu meðferðarkerfisins og haldið uppi vitundarvakningu um stöðu kvenna sem glíma við fíknivanda. Ein aðalástæða þess að til félagsins var stofnað var sú að okkur var ljóst að mikið skorti upp á að tekið væri tillit til sérstakra þarfa kvenna og lífreynslu þeirra í meðferð við fíkn. Rannsóknir sýna að konur sem leita sér meðferðar eiga í langflestum tilfellum að baki alvarlega áfalla- og ofbeldissögu sem hefur haft afgerandi áhrif á heilsu þeirra og líðan. Eitt af því sem félagið hefur barist fyrir er að meðferðarkerfið viðurkenni þessar staðreyndir og taki tillit til þeirra í þjónustu við þennan hóp, í samræmi við fyrirmæli alþjóðastofnana og bestu leiðbeiningar um meðferð kvenna með fíknivanda.

Það þarf ekki að skýra fyrir þér hvaða áhrif það hefur á fólk að alast upp við áföll, ofbeldi og vanrækslu og hvernig slík uppeldisskilyrði minnka viðnám gegn áframhaldandi valdbeitingu. Það er því afar mikilvægt að vanda til þjónustu við þennan hóp og sjá til þess að hún sé áfallamiðuð og byggi á kynjafræðilegri þekkingu á þróun fíknivanda. Eins og sakir standa eru langflestir starfsmenn meðferðarkerfisins, sem eru áfengis- og vímuefnaráðgjafar, með menntun sem inniheldur enga slíka fræðslu og samræmist ekki, að öðru leyti, öðrum stöfum sem Embætti landlæknis veitir starfsleyfi.

Okkur í Rótinni berast stöðugt sögur úr fíknimeðferðarkerfinu sem endurspegla þann veruleika að þar sé fólk með litla menntun að glíma við flókinn vanda. Margar þessara sagna fjalla um það að konur verði fyrir ofbeldi og áreitni í meðferðarkerfinu, aðallega af völdum karla sem eru með þeim í meðferð en einnig karla sem starfa í meðferðinni. Þær sögur sem fjalla um samband starfsmanna meðferðar við skjólstæðinga eru því miður ekki sjaldgæfar og ýmist hefjast þær í meðferðinni eða eftir að henni lýkur. Þessar sögur hafa nú verið staðfestar í rannsókn sem Rótin er aðili að og er enn í vinnslu. Sjá: https://www.rotin.is/slaandi-nidurstodur/.

Þegar konur sem lent hafa í erfiðri upplifun í kerfinu hafa samband við félagið er okkar fyrsta svar að benda á að best sé að leita til Embættis landlæknis og kvarta þar. Það virðist þó vera mikil hindrun fyrir fólk með fíknivanda að leggja fram kvörtun til yfirvalda ef marka má svör embættisins til Rótarinnar um atvik í meðferðarkerfinu. Á það ber líka að líta að margar konur sem leita sér meðferðar skilgreina ofbeldi ekki sem ofbeldi þegar þær koma í meðferð þar sem það er órjúfanlegur hluti tilveru þeirra, eins og kemur fra í rannsókn Ingólfs V. Gíslasonar á ofbeldi gegn konum: https://www.stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti-media/media/frettir2010/rannsokn_ofbeldi_heilbrigdistjonusta_22092010.pdf.

Nú hefur okkur í Rótinni enn einu sinni borist til eyrna að starfsmaður í meðferðarkerfinu eigi í óeðlilegu sambandi við konu sem var í meðferð undir hans stjórn, að þessu sinni í Krýsuvík. Þetta er því miður ekki í fyrsta sem okkur berast sögur af óeðlilegum samskiptum karlkyns starfsmanna meðferðarinnar í Krýsuvík við ungar konur, sem hafa verið þar í meðferð, á undanförnum árum. Ung kona sem hefur verið í sambandi við okkur lenti í alvarlegri áreitni þar í sumar sem hún kærði til lögreglu. Að öðru leyti skal tekið fram að við erum ekki með annað en frásagnir kunnugra sem ekki vilja blandast í málið en að þessu sinni fannst okkur þó ástæða til að vekja athygli ráðherra á málinu í þeirri von að þú hlutist til um að rannsaka málið.

Nauðsynlegt er að sjá til þess að konur geti verið öruggar í meðferð og ein leið til þess er að það sé viðmið að konur meðhöndli konur í svo viðkvæmri stöðu. Við bendum einnig á að Rótin sendi heilbrigðisráðherra greinargerð um stefnumótun og meðferð er varðar konur og fíkn hinn 26. júní sl: https://www.rotin.is/greinargerd-til-heilbrigdisradherra/ og í ágúst sendum við SÁÁ óskalista um yfir þau atriði sem við teljum nauðsynlegt að hafa í huga í meðferð: https://www.rotin.is/oskalisti-rotarinnar/.

Rótin telur að nú sé nóg komið af aðgerðaleysi vegna síendurtekinna frásagna um siðleysi í meðferðarkerfinu.

#MeToo #HöfumHátt #Þöggun #KonurTala

Virðingarfyllst,

fyrir hönd Rótarinnar,

Kristín I. Pálsdóttir, talskona

Hér má sjá erindið í PDF-skjali: Erindi_vegna_areitni.

Share This