Eftirfarandi tilkynning var send á fjölmiðla 28. janúar 2018:

Rótin hefur síðastliðin fimm ár margítrekað krafist þess að öryggi kvenna í fíknimeðferðarkerfinu sé tryggt og sent fjölda erinda til yfirvalda með óskum um úrbætur. Ríkar ástæður eru fyrir þessum kröfum félagsins. Konur sem eiga alvarlega áfalla- og ofbeldissögu eru ekki daglegir gestir á síðum fjölmiðla og eiga sér ekki öfluga málsvara. Sú staðreynd var einmitt kveikjan að stofnun Rótarinnar. Konur sem glíma við fíknivanda eru háðar einsleitu meðferðarkerfi þar sem sárlega vantar sérþekkingu á samslætti áfallasögu og fíknar og meðferð með tilliti til þess.

Við Rótarkonur þekkjum aragrúa frásagna kvenna sem lent hafa í valdbeitingu, áreitni og ofbeldi innan meðferðarkerfisins. Sumar hafa orðið fyrir áreitni í eða eftir meðferð, ungar stúlkur kynnast þar ofbeldismönnum sem misþyrma þeim, aðrar koma barnshafandi úr meðferðinni eða hefur jafnvel verið nauðgað á þeim stað sem á að vera griða- og batastaður.

Rannsókn á reynslu kvenna af meðferð styður það að kynjablönduð meðferð er ekki öruggur staður fyrir konur. Þetta kemur okkur því miður ekki á óvart og því teljum við siðferðilega vafasamt að karlar starfi við meðferð viðkvæmra kvennahópa, sérstaklega þá sem litla menntun hafa eins og áfengis- og vímuefnaráðgjafar.

Um allan heim rísa konur upp gegn rótgróinni kvenfyrirlitningu, áreitni og kynferðisofbeldi undir myllumerkinu #metoo. Opinberast hefur að þetta er sameiginleg reynsla þorra kvenna og ekki bundið tilteknum vinnustöðum. Prestar, læknar, stjórnmála- og háskólakonur opinbera niðurlægingu og kúgun sem þær hafa þagað yfir hingað til. Lítið hefur hins vegar heyrist frá þeim hópum kvenna sem minna mega sín. Þær hafa ekki haft sig í frammi í fjölmiðlum þar til nú þegar konur af erlendum uppruna segja frá hræðilegu ofbeldi og afhjúpa vanmátt íslenskra ábyrgðaraðila.

Undanfarið hefur verið fjallað um kynferðisbrot starfsmanna Krýsuvíkursamtakanna í fjölmiðlum og sendu samtökin af því tilefni frá sér yfirlýsingu. Rótin harmar að samtökin kjósi að senda frá sér svo dapurlega yfirlýsingu. Í henni er ekkert fjallað um ástæður þess að mál samtakanna eru komin í fjölmiðla og unga konan sem hafði þann sjaldgæfa kjark að kæra áreitni, sem hún varð fyrir í meðferð, er alveg sniðgengin í yfirlýsingunni heldur er þar tíundaður árangur samtakanna í meðferð. Samtökin sneiða því vandlega hjá umfjöllunarefninu sem er öryggi þessa viðkvæma hóps í meðferð en kjósa að bæta bölið með því að benda á eitthvað annað.

Share This